,,Þetta er tökulag sem var flutt í Eurovision fyrir Danmörku árið 1993. Það var Tommy Seebach sem samdi og flutti lagið og ég held að það megi segja að það fjalli um foreldri sem er að setja barnið sitt að sofa. Foreldrar mínir bjuggu í Danmörku þegar ég fæddist árið 1990 svo móðir mín þekkir lögin frá þessum tíma mjög vel” sagði Jóhanna um lagið í samtali við Bleikt. „Mamma leyfði mér svo að hlusta á þetta lag þegar ég var sjálf ófrísk af dóttur minni.“
Viðurkennir Jóhanna að þó að lagið sé fallegt hafi hún ekki tengt við það samstundist, það hafi þó breyst þegar hún varð sjálf mamma. „Þá tengdi ég allt öðruvísi við lagið. Mamma gerði svo íslenskan texta fyrir mig.“ Tileinkar Jóhanna lagið dóttur sinni sem er ótrúlega viðeigandi. Jóhanna Guðrún og unnusti hennar Davíð Sigurgeirsson eignuðust Margréti Lilju á síðasta ári. Davíð vann lagið með Jóhönnu sem gerir lagið einstaklega sérstakt fyrir litlu fjölskylduna. Lagið má heyra neðar í fréttinni.
Annars eru ótrúlega spennandi tímar framundan hjá Jóhönnu Guðrúnu en hún mun senda frá sér annað nýtt lag þegar nálgast haustið. „Það lag gerði ég með sama fólki og vann með mér Mamma þarf að djamma. Textinn er líka eftir Braga Valdimar Skúlason.“ Jóhanna vildi ekki gefa of mikið upp um lagið en sagði að það væri mitt á milli þess að vera hresst og rólegt svo aðdáendur hennar geta beðið spenntir.